Stjórn Kviku banka hefur samþykkt að verða við beiðni stjórnar Arion banka um að hefja formlegar samrunaviðræður milli Kviku banka og Arion banka og hefur viljayfirlýsing þess efnis verið undirrituð af hálfu beggja aðila.
Í viðræðum um sameiningu félaganna er lagt til grundvallar að viðskiptagengið verði 19,17 krónur á hvern hlut í Kviku banka og 174,5 krónur á hlut fyrir Arion banka í væntum samruna. Þannig munu hluthafar Kviku eignast 485.237.822 nýja hluti í sameinuðu félagi sem jafngildir 26% hlut. Gert er ráð fyrir sanngjarnri leiðréttingu skiptihlutfalla komi til úthlutunar af fjármunum félaganna til hluthafa fram til þess dags er samruninn tæki gildi.
Búist er við að viðræðurnar muni fara fram á næstu vikum og verður nánar upplýst um framvindu þegar ástæða er til og í samræmi við lögbundna upplýsingaskyldu bankans.
Vinsamlegast athugið að tilkynning þessi er tilkynning á innherjaupplýsingum í samræmi við 7. gr. reglugerðar (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik („MAR“), sem var veitt lagagildi hérlendis með lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021.